Menntun til sjálfbærni - Hugmyndir og hjálpargögn

Stefnan sem unnið er eftir í Skólum á grænni grein kallast sjálfbærnimenntun eða menntun til sjálfbærni og eru Skólar á grænni grein stærsta innleiðingartæki þeirrar stefnu í heiminum í dag. Á þessari síðu má finna námsefni sem tengist verkefninu á einhvern hátt. Í Skólum á grænni grein á Íslandi leynist mikill mannauður og deilum við hugmyndum sem reynst hafa vel í skólum um allt land. 

 

Með menntun til sjálfbærni er stefnt að því að skapa samábyrgt samfélag þar sem allar ákvarðanir og gjörðir taka mið af umhverfi, efnahag og félagslegri sanngirni. Mikilvægt er að þroska hvern einstakling sem virkan borgara, meðvitaðan um gildi sín, viðhorf og tilfinningar gagnvart ofantöldum hlutum bæði heima fyrir og hnattrænt. Þetta á við alla menningarhópa í nútíð og framtíð.

Hreinsum Ísland: Verkefnahugmyndir um plastmengun í sjó

Margrét  Hugadóttir    11.9.2017
Margrét Hugadóttir

Landvernd leggur áherslu á að berjast gegn plastmengun í hafi því hún ógnar bæði dýrum og öðrum lífverum. Um 80% af því plasti sem finnst í sjónum kemur af landi og því ýmislegt sem við getum gert til að sporna við þessari þróun.

Í ár ber Alþjóða strandhreinsunardaginn upp á Dag íslenskrar náttúru sem haldinn er hátíðlegur þann 16. september ár hvert. Landvernd hvetur einstaklinga, fyrirtæki og hópa til að taka þátt í baráttunni gegn plastmengun og skipuleggja sína eigin strandhreinsun. Hægt er að skrá sig á hreinsumisland.is.

Í tilefni af átakinu Hreinsum Ísland senda Skólar á grænni grein, öllum grunnskólum landsins verkefnahugmyndir sem gætu gagnast í plastlausum september.

Nemendur og starfsfólk Skóla á grænni grein hafa löngum staðið vaktina og haldið umhverfi skóla sinna hreinu. Við vonum að meðfylgjandi efni geti gagnast í plastfræðslu.

Tögg
hreinsumisland-VISIR_300x250.jpg 

Vista sem PDF