Menntun til sjálfbærni - Hugmyndir og hjálpargögn

Stefnan sem unnið er eftir í Skólum á grænni grein kallast sjálfbærnimenntun eða menntun til sjálfbærni og eru Skólar á grænni grein stærsta innleiðingartæki þeirrar stefnu í heiminum í dag. Á þessari síðu má finna námsefni sem tengist verkefninu á einhvern hátt. Í Skólum á grænni grein á Íslandi leynist mikill mannauður og deilum við hugmyndum sem reynst hafa vel í skólum um allt land. 

 

Með menntun til sjálfbærni er stefnt að því að skapa samábyrgt samfélag þar sem allar ákvarðanir og gjörðir taka mið af umhverfi, efnahag og félagslegri sanngirni. Mikilvægt er að þroska hvern einstakling sem virkan borgara, meðvitaðan um gildi sín, viðhorf og tilfinningar gagnvart ofantöldum hlutum bæði heima fyrir og hnattrænt. Þetta á við alla menningarhópa í nútíð og framtíð.

Hljóðvist

Góð hljóðvist skiptir miklu máli þegar kemur að vellíðan nemenda og starfsfólks.
Margrét  Hugadóttir    14.11.2016
Margrét Hugadóttir
Eitt af þemum Grænfánaverkefnisins er Lýðheilsa. Vellíðan nemenda og starfsfólks skóla skiptir miklu máli og spilar hljóðvist þar stóra rullu. Hægt er að bæta hljóðvist með ýmsu móti en hér má lesa nokkrar ráðleggingar frá Kennarasambandi Íslands og SÍS.
 
Nokkrar góðar hugmyndir
 
Við höfum lært margt af úrræðagóðu starfsfólki Grænfánaskóla á Íslandi og er því um að gera að deila því með öðrum.
 
Í leikskólanum Sólborg í Reykjavík, sem er leiðandi í þjónustu fyrir börn með heyrnaskerðingu, er hljóðvist bætt meðal annars með því að setja tennisbolta undir stólfætur. Hljóðvist í leikskólanum batnaði til muna eftir að þar til gerðar hljóðdeyfandi plötur voru settar upp í almenningsrýmum leikskólans. Plöturnar eru léttar, ekki dýrar og þær má líma á veggi. Það þarf því ekki að kosta miklu til við að bæta starfs- og námsumhverfið.
Í leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi er hljóðvist inni á deildum bætt með því að hafa svampdúk undir vaxdúkum á borðum. Þá glymur síður í borðbúnaði eða dóti sem börnin leika sér með.
 
 
Hægt er að mæla hávaða og gera hann sýnilegan með ýmsu móti. T.d. má mæla hávaða í matsal með desíbela mæli, en hægt að að hlaða niður ókeypis appi sem notar hljóðnemann í spjaldtölvum til að mæla hljóðstyrkinn. Sjá hér.
 
Inni á deildum og í kennslustofum, má gera æskilegan hljóðstyrk sýnilegan með sjónrænum skilaboðum. Til dæmis mætti ræða um hvernig hljóð á að vera í mismunandi vinnu í skólanum. Sjá fleiri hugmyndir hér.
 
Einnig má gera hljóð sýnilegt á skemmtilegan máta með skopparaboltum sem hoppa á skjá þegar hljóðstyrkur eykst. Sjá hér.
Síðan krefst ekki innskráningar en leyfa þarf aðgang að hljóðnema tölvunnar svo að síðan virki.
 
Við þiggjum ávallt góðar hugmyndir og snjallar ábendingar varðandi lýðheilsu á graenfaninn@landvernd.is
 
 
 

Vista sem PDF