Skrefin sjö

Til að fá að flagga Grænfánanum þurfa skólar að stíga sjö eftirfarandi skref. Gott er að miða við að ferlið taki um tvö ár. Hægt er að smella á fyrirsögn hvers skrefs fyrir nánari upplýsingar. 

Hægt er að hlaða niður matsblaði um skrefin sjö sem skólar geta stuðst við. 

1. Umhverfisnefnd Umhverfisnefnd starfar við skólann og skipuleggur og stýrir verkefninu. Í nefndinni sitja fulltrúar nemenda, kennara, ræstingafólks, umsjónarfólks, foreldra og stjórnenda skólans. Nefndin á að starfa samkvæmt lýðræðislegum leikreglum og nemendur hafa þar mikið vægi. Mikilvægt er að nefndin haldi reglulega fundi, en gott er að miða við að a.m.k. þrír fundir séu haldnir á hvorri önn. Á fundum eru fundargerðir skráðar og séð til þess að nemendum sé leiðbeint um hlutverk sitt sem fulltrúar samnemenda sinna við umhverfisstjórnun. Þannig gegnir umhverfisnefndin mikilvægu hlutverki í kennslu í lýðræðislegum vinnubrögðum og lífsleikni. Umhverfisnefnd sér um að velja þema í samráði við aðra nemendur og starfsmenn. Þau þemu sem í boði eru má sjá hér

2. Mat á stöðu umhverfismála Meta skal stöðu umhverfismála í skólanum með aðstoð matsblaða. Útbúin hafa verið matsblöð fyrir hvert og eitt þema, fyrir leikskóla og yngsta stig grunnskóla annars vegar og fyrir eldri stig grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar. Nemendur eiga að leiða matið og er nauðsynlegt að sem flestir nemendur taki þátt í matinu. Matið er síðan notað til að setja skólanum markmið til úrbóta í sjálfbærni- og umhverfismálum.   

3. Áætlun um aðgerðir og markmið Þær upplýsingar sem matið veitir eru notaðar til að gera áætlun um markmið og aðgerðir. Mikilvægt er að skólar setji sér skýr og raunhæf markmið og gjarnan að einhverju leyti mælanleg. Þegar markmiðin hafa verið sett eru skilgreindar leiðir eða aðgerðir til að ná markmiðunum. Gott er að nota sérstakt markmiðssetningareyðublað við markmiðssetninguna. Miðað er við að skólar setji sér fimm markmið fyrir hvert tveggja ára tímabil og nái a.m.k. fjórum þeirra. 

4. Eftirlit og endurmat Stöðugt eftirlit og endurmat á að tryggja að aðgerðir séu framkvæmdar til að ná settum markmiðum. Ágætt er að nýta markmiðssetningareyðublað við endurmatið en síðasti dálkurinn mat er vel til þess fallinn. Gott er að fara yfir stöðuna á umhverfisnefndarfundum. Hafi skólar sett sér það markmið að halda utan um tölur varðandi úrgang er gott að nýta sér þetta eyðublað

5. Námsefnisgerð og tenging við aðalnámskrá Mikilvægt er að allir nemendur vinni verkefni sem tengjast með einhverjum hætti þeim markmiðum og þemum sem unnið er með. Hafa skal í huga að grunnþættir menntunar í aðalnámskrá, sjálfbærnijafnréttilýðræði og mannréttindiheilbrigði og velferðsköpun og læsi, tengjast allir Grænfánaverkefninu. Því er mjög gott að vinna með grunnþættina innan þeirra markmiða sem skólinn setur sér. Í handbókinni Á grænni grein er að finna nánari upplýsingar um þetta, auk þess er fjöldi verkefnia á verkefnakistu Skóla á grænni grein. 

6. Að upplýsa og fá aðra með Skólar eru hvattir til að tengjast og vinna með öðrum í nærsamfélaginu, s.s. stofnunum, til að læra af reynslu þeirra og sérþekkingu. Alls kyns opnar sýningar á verkum nemenda í nærsamfélaginu og kynningar í skólanum eða í fjölmiðlum upplýsa samfélagið um framgang verkefnisins. Í þessu skrefi felst einnig að standa fyrir viðburði í skólanum þar sem foreldrar og nærsamfélag taka virkan þátt. Einnig er gott að hafa umhverfissáttmála og -markmið vel sýnileg, t.d. á heimasíðu, í fréttabréfum o.fl. 

7. Umhverfissáttmáli Skólanum er settur umhverfissáttmáli sem lýsir í stuttu máli heildarstefnu skólans í sjálfbærni- og umhverfismálum. Þetta getur verið slagorð, ljóð, lag eða umhverfisstefna. Mikilvægt er að sáttmálinn sé unninn í samvinnu allra sem að skólanum standa og að hann sé vel kynntur innan skólans og utan. Einnig er mikilvægt að sáttmálinn höfði til nemenda og að þau eigi auðvelt með að tileinka sér hann.

Þegar skrefin sjö hafa verið stigin getur skóli sótt um að fá Grænfánann afhentan. Það er gert með því að fylla út umsóknareyðublað og skila inn greinargerð þar sem útlistað er hvernig skrefin sjö voru stigin. Einnig er æskilegt að skila inn einu verkefni í verkefnakistu og fundargerðum frá fundum umhverfisnefndar.  

Þegar fáninn blaktir við hún er haldið áfram. Ný umhverfisnefnd er kosin sem setur sér ný markmið og keppist við til að skólinn fái Grænfánann endurnýjaðan eftir tvö ár. 

Nánari upplýsingar má lesa í bókinni Á grænni grein